Helga S. G. Ingólfsdóttir
Fædd 19. mars 1931
Dáin 7. janúar 2019
Minningarathöfn í ríkissal Votta Jehóva, Hraunbæ 113, Reykjavík þriðjudaginn 15. janúar 2019
Helga Sigríður Gíslason Ingólfsdóttir fæddist í Winnipeg í Manitoba í Kanada 19. mars 1931. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 7. janúar 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Helgi Ingólfur Gíslason, f. 1899, d. 1968, og Fanney Gísladóttir, f. 1912, d. 2004. Systkini Helgu eru Erna (Edda), f. 1928, d. 2001, Hörður, f. 1930, d. 1996, Ingólfur Gísli, f. 1941, d. 1996, Lára Sigrún, f. 1943, Ólafur, f. 1945, d. 2016, og Sigurður Valur, f. 1948.
Helga giftist 15. september 1955 Hermanni Hallgrímssyni, f. 15.9. 1928, d. 27.4. 2001. Foreldrar hans voru hjónin Hallgrímur Jónsson, f. 1890, d. 1973, og Rannveig Sigurðardóttir, f. 1889, d. 1955. Börn Helgu og Hermanns eru: 1) Rannveig Helga, f. 20.7. 1956, gift Ómari G. Jónssyni. Synir þeirra eru Magnús Dan, f. 14.10. 1988, og Helgi Hrafn, f. 17.9. 1994. 2) Jón Ingólfur, f. 28.12. 1961.
Helga var á fjórða ári þegar fjölskyldan flutti heim til Íslands. Hún hafði frá barnsaldri mikinn áhuga á hestum og var sem unglingur knapi á mörgum kappreiðum. Helga og Hermann bjuggu í Reykjavík fyrir utan ellefu ár sem þau dvöldust í Kaliforníu sér til heilsubótar.
Minningarathöfn um Helgu fer fram í ríkissal Votta Jehóva í Reykjavík í dag, 15. janúar 2019, klukkan 14.