Minningargrein - Kristrún Stardal
Uppúr áramótum bárust mér þær fréttir til Kaliforníu að Helga Sigríður móðursystir mín hefði veikst og lægi þungt haldin á sjúkrahúsi. Í fyrstu var ekki hægt að trúa öðru að þessi fínlega en sterka kona, sem sigrast hafði á svo miklu áður, myndi gera það aftur núna. En því miður reyndist tímaglas hennar runnið út í þetta sinn og hún kvaddi okkur 7. Janúar. Systurnar, Edda móðir mín og Helga giftu sig með stuttu millibili á sjötta áratugnum og eignuðust okkur frændsystkinin á árunum eftir það. Það var því eðlilega mikill samgangur á milli heimilanna. Við Jón Ingólfur vorum miklir félagar á okkar uppvaxtarárum og erum enn. Ég var því stundum í fóstri eða í heimsókn hjá þeim í Frostaskjólinu. Hef oft hugsað til þess seinna hvað við Jón Ingólfur hljótum að hafa reynt stundum á þolrifin í Helgu með uppátækjum okkar og göslagangi. Það eru margar skemmtilegar minningar frá þeim árum og sumar af stærstu stundum æsku minnar tengjast Helgu og fjölskyldu. Ég var hjá þeim vorið 1967 þegar mamma lá á sæng og það var Helga frænka sem kallaði á mig inn til að láta mig vita að ég væri búin að eignast lítinn bróður. Tæpum 4 árum seinna var ég líka hjá þeim fyrstu dagana eftir að við misstum bæði hann og heimilið okkar. Þá var gott að eiga þau að og Helga gerði það sem hún gat til að hugga og styrkja unga systurdóttur sína í mikilli sorg og áfalli. Ég var því ekkert sérlega spennt þegar ævintýramennskan greip þau og þau fluttu öll út til Kaliforníu á áttunda áratugnum. En Helgu leið vel í veðráttunni hér og dásamaði hana mikið. Það vildi maður ekkert endilega heyra, bara fá þau heim. En löngu síðar æxlaðist þannig til, eftir að þau voru öll, nema Jón Ingólfur, flutt aftur heim, að ég kom hingað út og ílentist sem upphaflega stóð ekkert til. Ég hef oft hugsað til frænku með kímni þegar ég hljóma alveg eins og hún og dásama veðrið í Kaliforníu. Þau hjónin komu lengi árlega hingað í heimsókn til Jóns Ingólfs og þá áttum við oft góðar stundir saman. Helga og Hermann voru einstaklega samhent hjón og nánast háð hvort öðru að manni fannst. Ég og fleiri höfðum því í fyrstu svolitlar áhyggjur af Helgu þegar Hermann féll skyndilega frá hér í Kaliforníu vorið 2001, 2 vikum á undan móður minni Eddu, systur Helgu. Ég man ég flýtti mér áhyggjufull heim til frænda míns þar sem þau voru í heimsókn og hálf bjóst við að finna Helgu þar niðurbrotna. Ég kom að bílskúrnum opnum og þar sem ég gekk inní hús sá ég að þvottavélin var í gangi. Þá vissi ég að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af Helgu. Á meðan við vorum öll eins og hún, í áfalli yfir fráfalli Mannsa, var hún að þvo þvott og sinna gestum. Jú, því lífið verður að halda áfram og hún sýndi sannarlega styrk sinn vikurnar þar á eftir við tvöfalt áfallið sem þá varð. Við frænkur áttum margar góðar stundir saman hér í Kaliforníu og heima á Íslandi og þá var oft mikið spjallað og hlegið. Við vorum ólíkar um flest en Helga var alltaf svo falleg, kát og með hlýja og góða viðveru. Alltaf svo fín, vel til höfð og virtist lítið eldast. Eitt sem einkenndi hana alla tíð, og við áttum sameiginilegt, var ást hennar á hestum og dýrum yfirleitt. Helga var mikil hestakona og knapi á yngri árum og keppti sem slík á mótum. Hlaut þá, eins og gengur, marga byltuna sem síðar áttu eftir að segja til sín vegna bakmeiðsla. Fólk sem er gott við dýrin er gott fólk að mínu mati og það var Helga frænka mín svo sannarlega. Það er því með miklum söknuði sem ég kveð hana, en mestur er missir Rannveigar, Ómars og sona þeirra sem og Jóns Ingólfs. Mínar innilegust samúðarkveðjur til ykkar allra, minningin um yndislega móður, ömmu og frænku lifir. Hvíl í frið elsku frænka og takk fyrir allt og allt. Þig mun ég ávallt geyma í hjarta mínu.
Þín Kristrún Þórdís